Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Séreignasparnaðarleið "Fyrstu fasteignarinnar"

Ríkisstjórnin blés til fundar í Hörpu í dag á kostnað ríkisins til að kynna aðgerðir sínar gegn verðtryggingu lána.

Þetta var þó e.t.v. meira kosningaáróðursfundur um aðgerðir sem sagðar eru til að hvetja fólk til að kaupa sína fyrstu íbúð.

Ein af þeim leiðum sem var kynnt var að fólk gæti nýtt séreignasparnaðinn til að kaupa sína fyrstu íbúð með tíu ára hámarksnýtingu hans og mest upp á miljón hvert ár. Ekki virðist vera gert ráð fyrir neinni tekjutengingu eða aukalegum stuðningi við þá lægra launuðu í þessum aðgerðum.

Ég ákvað því mér til gamans að skoða nokkrar launatölur út frá nýjustu launakönnun VR og reikna út hversu mikið þetta gagnaðist fólki. Séreignasparnaðurinn sem um ræðir er 6% af launum og skiptist þannig að 4% koma frá launþega og 2% frá launagreiðanda.

Ef við byrjum á því að kíkja á kvenkyns einstakling sem vinnur við að afgreiða á kassa þá eru meðalmánaðarlaunin samkvæmt launakönnun VR 292.697 kr. Séreignasparnaðurinn sem myndi safnast á ári væri þá um 210.744 og yfir 10 ár þá er þetta 2.107.440 þúsund miðað við núverandi laun. Það er ekki beysið og maður stórefast um að viðkomandi nái nokkurn tímann að safna sér fyrir íbúð, sérstaklega ef viðkomandi er jafnvel einstæð móðir á leigumarkaði. Eiginlega er það er ávísun á ævarandi fátæktrargildru.

Segjum sem svo að viðkomandi kona á kassa eigi sér mann sem er grafískur hönnuður. Hann hefur í meðallaun samkvæmt launakönnun VR 486.546 kr. Samanlagður séreignasparnaður þeirra yfir árið yrði 561,055 kr. Miðað við þróunina á fasteignamarkaði með öllum sínum verðhækkunum, minnkandi framboði vegna braskara og airbnb-væðingu þá efast maður um að þetta eigi eftir að duga sem innborgun á litla íbúð þegar að kaupunum kemur eftir 10 ár....þrátt fyrir launaþróun.


Næst skulum við líta á karlkyns einstakling sem er verslunarstjóri. Hann er með meðallaun upp á 497.652 kr. og myndi þá ná að safna sér inn 358.309 kr. í séreignarsparnað á ári. Hann yrði þó að finna einhverjar fleiri leiðir til að ná að redda sér fyrir útborgun og liklegt að það yrði ströggl vegna yfirdráttar og láns fyrir útborguninni.

Tökum nú næst eitthvað sem mætti kalla hefðbundið millistéttarpar. Segjum að hún sé bókari með diplómunám sem er með meðallaun upp á 468.962 kr. Hann er viðskiptafræðingur með meðallaun 635.487 kr. Miðað við þetta þá gætu þau safnað 1.104.449 kr séreignarsparnað á ári fyrir sinni fyrstu íbúð. Hámarkið er þó víst milljón sem þetta par gæti safnað en miðað við laun þá gætu þau jafnvel lagt eitthvað aukalega til hliðar ólíkt láglaunakonunni. Manni finnst þó líklegt að námslán, leiga og bíll eigi eftir að vinna á móti aukasparnaðnum svo það yrði nú ekki eins mikið afgangs til að spara.

Svo eru það nú blessaðir lögfræðingarnir. Meðallaun einstæðs karllögfræðing eru víst 782.702 kr. og hann myndi nú geta náð inn 563.545 kr. á ári sem myndi duga til að ná hámarkinu á einstakling. Ef hann væri nú í sambandi með kvenkyns lögfræðingi með meðallaun 734.456 þá væru þau að komast upp í hámarkið enda getur hún skaffað 528.808 kr. í séreignasparnað.

Síðan eru nú þeir sem eru svo stálheppnir að flokkskírtenið hefur skilað þeim aðstoðarmannastöðu ráðherra. Þeir hafa laun allt frá 1.167.880 kr. upp í 1.374.252 kr. samkvæmt Viðskiptablaðinu. Slíkir aðilar geta lagt allt frá 840.874 kr. allt að 989.461 kr til hliðar fyrir séreignarsparnað og þar af færi hálf milljón í íbúðina.

 Það ætti nú að segja talsvert um hverjum þessi leið hentar best.

 Þeim sem hafa bestar tekjurnar og eru í bestu stöðunni.

 Líkt og svo margt annað frá þessari ríkisstjórn.

SMÁ VIÐBÓT: mér var bent á að það hefði leynst inn í þessari leið hálfs milljón skattfrjálst hámark per einstakling og hefur þetta verið leiðrétt miðað við það. Það breytir þó því ekki að þessi leið hentar þeim best sem mestar hafa tekjurnar þar sem þeir ná að fá skattfrjálsan séreignarsparnað fyrir íbúðina OG leggja einnig séreignarsparnað til hliðar ólíkt þeim sem minnstar hafa tekjurnar.

[if gte mso 9]> Normal 0 21 false false false IS X-NONE X-NONE

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu