Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Pólitísku morgunstundir afa og langafa

Mér varð hugsað til langafa míns og afa núna í morgun.

Ég bjó hjá ömmu, afa og langafa í mörg ár og sat oft með gömlu mönnunum á morgnana þegar þeir voru að kýta um pólitík yfir kaffi og brauði. Báðir höfðu þeir verið Framsóknarmenn þó afi breytti um kúrs og var alltaf meiri jafnaðarmaður að manni fannst í umræðunum yfir kaffinu. Stundum endaði hið pólítíska kýt með því að langafi stóð upp, lagði bollann sinn á sinn stað og rauk inn til sín eftir að afi hafði náð að æsa hann upp í það að verða reiðan. Það sást alltaf á látbragði langafa þegar hann var orðinn reiður þó maður muni ekki til þess að hann hafi sleppt sér nokkurn tímann, slík var sjálfstjórn hans.

Báðir voru þeir mjög réttsýnir, góðir og siðferðislega stöndugir menn sem blöskraði siðleysi hvort sem það var löglegt eða ólöglegt og óheiðarleika hverskonar líkt og ég komst að. Amma blandaði sér einstaka sinnum inn í þessa helgistund þeirra gömlu en þegar henni blöskraði eitthvað þá var það sagt með ákveðnum hneykslunartón sem skilaði fullri vitneskju um hvað henni fannst um málin.

Ég fór því að velta fyrir mér hvernig þeir hefðu brugðist við fregnum nútímans, búnir að fara í gegnum heimstyrjöld og allskonar tíð þar sem Ísland fór að þróast í átt að nútímann og hverskonar samfélag þeir höfðu viljað að yrði eftir þeirra tíð.. Það er sú tilfinning sem situr eftir hjá mér sem minningu um þessar morgun- og stundum kvöldumræður þeirra gömlu eftir fréttir að við ættum að geta búið í góðu, réttsýnu og heiðarlegu samfélagi þar sem allir leggðu sitt af mörkum til að tryggja betri framtíð og velferð allra.

Ég held að það sem við höfum fengið núna og með Hruninu upp á yfirborðið sé ekki það sem þeir né margurinn vill sjá sem "löglega og eðlilega" hluta samfélagsins, hvað þá að það sé talist siðað eða flokkuð sem góð gildi. Ég held aftur á móti að viðbrögð þeirra hefði verið þannig að  þeim hefði verið verulega ofboðið yfir kaffibollanum, notað þung orð og jafnvel heyrst blótsyrði frá langafa sem maður man ekki til að nokkurn tímann hafi gerst. Svo hefði það örugglega gengið svo langt að langafi hefði staðið reiður á svip upp, gengið frá kaffibollanum á sinn stað og rokið inn til sín meðan afi hefði farið að klæða sig í jakkann og setja á sig hanskana. Síðan hefðu þeir báðir sest upp í gamla Volvo-inum hans afa og haldið niður í bæ til að mótmæla með ömmu í för sem aftursætisbílstjóra.

Hún tryggði alltaf að afi kæmist á réttan stað.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu