Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Píratabúsið

Um daginn lenti ég í skringilegri rimmu við þingmann Pírata út af Feisbúkk status sem ég skrifaði í tengslum við áfengisfrumvarpið.  Sú rimma endaði í frétt hjá Kvennablaðinu og einhverri netumræðu í framhaldi vegna þeirra orða þingmannsins að ég væri hrokafullur dóni og fáviti sem ætti að fokking fokka mér fyrir þennan status. Ég kippti mér svo sem ekkert upp við þetta en aftur á móti hefur þetta fengið mig mikið til að hugsa um þá þróun sem hefur verið í gangi varðandi Pírata og búsfrumvarpið sem mér þykir persónulega vera algjört drasl og vont fyrir neytendur en það er eitthvað sem er efni í annan pistil.

Búsfrumvarpið hefur yfirleitt verið sem slíkt lagt fram árlega af hálfu Sjálfstæðismanna af gömlum vana og þróast yfir í það að vera eitt af stærri smjörklípumálum þeirra ásamt flugvallarmálinu og listamannalaunaumræðunni. Þessi mál hafa þau öll sammerkt að skipta fólki uppi í stórar fylkingar sem berjast sín á milli samhliða því að athyglin dreifist frá einhverju stærra eða eins og þetta kallast í hertækni: sundra og sigra.

Núna í ár ákváðu nokkrir þingmenn Pírata að kvitta upp á frumvarpið og ljóst var strax að ekki var sætti innan þeirra raða um þetta frumvarp. Birgitta taldi það best að skjóta þessu í þjóðaratkvæði enda er þetta stórt hitamál sem velflestir hafa skoðun á og er eiginlega vel til þess fallið að almenningur segi sitt um þetta. Píratar hafa líka talað fyrir lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum sem tæki til að leysa úr deiluefnum þjóðarinnar.

Það sem gerst hefur í kjölfarið er að hluti Pírata sem maður gerir sér ekki almennilega grein fyrir hvort sé stór eða lítill hluti þeirra(miðað við kannanir er það helmingur) hefur tekið áfengisfrumvarpið upp á arma sína og gert að einhverskonar aðalbaráttumáli Pírata í umræðunni. Sjálfstæðismenn og litlu útibúin þeirra í ríkisstjórninni hafa haldið sig sem mest til hliðar og leyft þessum hópi Pírata að sjá alveg um umræðuna og ýta þar með undir að sem mest athygli beinist að frumvarpinu í netumræðum. Með því að leyfa þessum Pírötum að „hijacka“ málinu til sín og halda í kjölfarið athyglinni á sér þá hefur mesta ábyrgðin á málinu og umræðunni um leið færst á hendur Pírata sem hafa orðið í huga þó nokkurra að aðalmálsvara þess að áfengi skuli fara í verslanir sama hvað.

Þessi málsvari sem slíkur hefur að auki tekið á sig ímynd ofstækisfulls málsvara dólgafrjálshyggju þar sem bæði þingmenn og hinir háværu stuðningsmenn frumvarpsins innan raða Pírata hafa blásið á neytendarök, lýðheilsurök og aðvaranir landlæknis sem einhversonar kjaftæðisbábiljur sem beri ekki að taka mark á, láta sem að vísindarannsóknir séu bara rugl og athugasemdir þeirra sem hafa áhyggjur af neytendamálum, óheftum auglýsingum, forvörnum, aukinni drykkju og áfengissýki séu bara bull sem skipti engu máli. Maður hefur m.a.s. séð þingmann Pírata halda því fram að hann eigi bágt með að trúa því að fólk(lesist alkóhólistar) geti fallið með því einu að sjá áfengi álengdar sem lýsir fyrir mér allavega ákveðinni vanþekkingu á áfengissýki verandi aðstandandi alka líkt og fjölmargir Íslendingar.  

Í stað þess hefur þessi hópur tekið upp rök dólgafrjálshyggjunnar um að þetta sé grundvallarmál frelsis á Íslandi og sé einkamál sem ríkið eigi ekkert að vasast í fyrir utan að bera kostnaðinn af heilsutengdum sjúkdómum og áfengissýki í gegnum heilbrigðiskerfið. Af þeim sökum eigi að setja búsið í búðir án tillits til mótraka og andstöðu almennings sem eigi heldur ekkert að hafa um málið að segja með t.d. þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að þetta er „grundvallarfrelsismál“ sem þingmenn eigi einir að koma nálægt og hafa þar með vit fyrir fjöldanum. Því er svo klykkt út með háværum hrópum til áherslu um að málið sé í samræmi við grunngildi Pírata og gefið þar með í skyn að þeir sem eru á móti séu andsnúnir því sem Píratar standa fyrir.

Manni finnst ýmislegt við þennan málflutning að athuga með tilliti til þess hvernig Píratar hafa málað sig upp í augum kjósenda. Þegar ég sem kjósandi greiddi þeim atkvæði mitt þá var það vegna þess að í mínum huga ætluðu Píratar að vera pönkið sem myndi taka á spillingu, auka lýðræðið m.a. með þjóðaratkvæðagreiðslum um umdeild málefni og gera sitt sem breytingarafl til að breyta stjórnarskrá og öðru því sem er að í íslensku samfélagi. Um leið ætluðu Píratar að láta almenning og grasrót ráða för um framlagningu mála og stefnumótun að manni skildist. Ímyndin um Pírata í mínum huga voru alls ekki að þetta væri aflið sem myndi hoppa með baráttuhrópum upp á vagninn viljandi eða óviljandi með auðræðinu sem vill færa búsið í hendur fákeppnismarkaðs til að auka hagnaðinn af hlutabréfunum í Högum. Það að þingmaður Pírata (ef ekki fleiri þingmenn þeirra) og einhver hluti grasrótar virðist vera farin að tala á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um hitamál sem fólk hefur ólíka sýn á að um sé að ræða lýðheilsumál, neytendamál, markaðsmál eða frelsismál er að mínum dómi heldur ekki í samræmi við þessa ímynd sem ég gerði mér af Pírötum né það sem maður hélt að væri grunnstefna Píratar í hnotskurn: blessað og fjandans lýðræðið. Allavega hefur maður farið að stórefast um eigin dómgreind sem kjósanda og farinn að hallast að því að það hafi verið mistök að greiða Pírötum atkvæði sitt ef fólk þar er tilbúið til að drekkja stærstu málunum sínum í bjór.

Nú er ég svo sem bara einhver dóni út í bæ og eitt atkvæði sem skiptir litlu máli en manni finnst þó eitt atriði til viðbótar vera umhugsunarvert ef ég væri sjálfur innvígður og innmúraður Pírati. Allur þessi hamagangur þessa hóps Pírata við að gera búsið-í-búðir að nokkruskonar aðalbaráttumáli Pírata í huga fólks óháð því hvort sem þessi hópur er stór eða lítill, hefur skilað ekki bara efasemdum meðal einhverra kjósenda heldur einnig því sem er alvarlegra fyrir aðra Pírata sem leggja ekki þessa ofuráherslu á Píratabúsið. Athyglin á önnur mál og baráttu inn á þingi hefur orðið mun fyrir minni vikið s.s. á mistökin vegna tryggingafrumvarpsins, skýrsluskil Bjarna Ben eru byrjuð að sökkva til botns í búsinu og sitthvað fleira nær ekki lengur athygli til viðbótar við þá orku sem fer forgörðum. Slíkt hefur afleiðingar í minni kjósandans og þessi Píratabúslæti geta skilað því að lokum að þingflokkurinn minnki enn á ný án þess að ná nokkrum árangri í sínum stærstu málum.

Nokkuð sem mun vekja mikla kátinu meðal Sjálfstæðisflokksins.

Með tilheyrandi Bermúdaskál úr Bónus.

Á kostnað Pírata sem sköffuðu þeim búsið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni