Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Mistökin við að treysta Bjarna Ben

Eitt sinn gerði húsfélagið mitt þau mistök að fá iðnaðarmann til að sinna verki á grundvelli trausts um að hann myndi vinna verkið samkvæmt samningi.  Sá stakk svo af frá ókláruðu verki eftir fyrstu greiðslu  samkvæmt þeim samningi sem gerður var.

Eftir mikið rex og pex mætti hann aftur til verksins. Á ákveðnum tímapunkti þá óskaði hann eftir smá fyrirframgreiðslu til að geta keypt efni og eftir umhugsun þá var það ákveðið að verða við því með semingi í ljósi aðstæðna.

Hann stakk strax af frá verkinu og við sátum uppi með að hafa gert þau stóru mistök að gefa óheiðarlegum manni annan séns.

Okkar sök, okkar bjánaskapur, okkar tjón.

Þannig hugsa flestir örugglega eftir þennan lestur.

En það er svo skrítið að svoleiðis hugsun virðist ekki gilda þegar kemur að mun óheiðarlegri, svikulli og ósannsöglum mönnum á borð við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins.

Nú hefur Bjarni Benediktsson svikið loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, hann hefur svikið um að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem vinnuveitendur hans kusu um, hann bregst við gagnrýni og mótlæti með hroka og hótunum freka kallsins sem fær ekki það sem hann vill, hann hefur verið uppvís af því að notast við flókna feluleiki með aflandsfélög í skattsvikaskjólum, fjölskylda hans eignaðist Borgun og ýmsar aðrar „fyrirgreiðslur“ frá honum sem almenningi stendur ekki til boða, hann hefur flækt sig inn í Vafninga sem tæmdu bótasjóði og tengdust Hruni bankanna, hann seldi hlutabréf sín í Glitni á „réttum tíma“ þegar enginn vissi að bankinn væri á barmi gjaldþrots og hann var stjórnarformaður N1 sem endaði með gjaldþroti, fjártjóni fyrir aðra og atvinnuleysi annarra en hans.

Þetta er bara aðeins brot af ferli hans en samt virðist fjöldi fólks treysta honum og búast við því að hann standi við orð sín.

Manni finnst það því stórundarlegt að opinberir starfsmenn skuli treysta því að hann haldi samning og orð sín um að kjör opinberra starfsmanna verði leiðrétt eftir að hann hefur tekið af þeim lífeyrisréttindi.

Það er nefnilega eiginlega hægt að treysta á það að þetta verði svikið, sérstaklega í ljósi þess að Bjarni Ben vill keyra lög sem taka lífeyrisréttindi af opinberum starfsmönnum með hraði í gegnum hið hlýðna færiband þingsins og það án þess að nokkrum gefist ráðrúm til að kryfja þau betur.

Það er ekki einu sinni búið að kynna þetta fyrir félagsmönnum þeirra sem eiga að missa réttindi sín og treysta á að STEFNT VERÐI AÐ því þeir fái sambærileg kjör og almenni markaðurinn......einhvern tímann í framtíð langt í burtu.

Ef eitthvað er á þetta að vera öfugt miðað við sviksemi, lygar og óheiðarleika Bjarna Ben og félaga hans.

Fyrst samræma launin, svo ætti að skoða það af hálfu opinberra starfsmanna hvort eigi að stefna á það að samræma lífeyrisréttindin þegar ljóst er að hvort hitt hefur verið framkvæmt.

Þannig ætti að vera hugsunin þegar kemur að orðheldni Bjarna Ben enda eru það stórkostleg mistök að trúa orðum hans og treysta á að hann standi við gerð samkomulög í ljósi reynslunnar.

En því miður þá á að keyra þetta í gegn sama hvað og það sem fyrst áður en ráðrúm gefst til að rýna betur ofan í afleiðingarnar.

Hótanir Bjarna Ben um að það verði ekki kosningar ef þetta fæst ekki samþykkt segja allt til um það.

En segir manni líka að það sé hugsanlega eitthvað meir á spýtunni fyrir hann, ættingja og vini í Sjálfstæðisflokknum.

Manni finnst það þessvegna líkleg sú kenning sem einhver fleygði fram að það tengist 120 milljarða innspýtingu ríkisins inn í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og að skuggasamkomulag sé í gangi um að hluti þess fé renni í fjárfestingu LSR í kísilverksmiðjunnar Thorsil sem er í eigu innvígðra og innmúraðra Sjálfstæðismanna.

Að ógleymdri fjölskyldu Bjarna Ben sem skipaði sjálfur helming stjórnarmanna í LSR.

Annað eins hefur nú gerst áður.

Þetta er jú Ísland.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu