Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Minning um endurskrif sögu McCarthy-ismans

Fréttablaðið minnti mann á það í morgun að á þessum degi hófst víst McCarthy handa við að ofsækja fólk fyrir skoðanir sínar og þar með hófst eitt af fjölmörgum ljótum tímabilum í sögu BNA sem sýnir okkur hversu yfirborðskennt "frelsið" var þá sem og nú.

Nú þarf svo sem ekkert að fara eitthað ofan í það en þetta minnti mig óvart á grein sem ég las fyrir einhverjum fjölda ára síðan í öfgahægri tímaritinu Þjóðmál. Þar ritaði manneskja sem átti eftir að verða framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Gréta eitthvað, nokkurskonar „alternative facts“ grein til varnar McCarthy þar sem hann hefði nú verið að reyna sitt besta til að sporna við dómsdagshættunni sem stafaði af vondum kommúnistum sem hefðu laumað sér út um allt. Allt kommaliðið sem hefði misst vinnuna, flúið land og drepið sjáflt sig, hefði nú í raun haft það fínt á þessum tíma enda var það tiltekið að mörg þeirra hefðu nú getað borðað úti í vellystingum þarna í París sem greinilega var mekka kommana að mati greinarhöfunda(þetta er skrifað á þeim tíma þegar Frakkar þóttu enn vondir vegna þess að þeir studdu ekki Íraksstríðið eins og Ísland í nafni Davíð Oddsonar). Nú man ég ekki hvernig endalok McCarthy voru sögð vera af greinarhöfundi en manni rámar að hugsanlega hafi þau hafi verið útskýrð á þann veginn að vinstrisinnaðir óvildarmenn hefðu rifið þennan mikla baráttumann niður með loftárásum fjölmiðla þegar hann missteig sig litillega líkt og Bjarni Ben með skýrsluskúffuna sína og skattaundanskotsfélagið sitt.

Í kjölfarið á þessari upprifjun minni þá minnir þetta mann einnig á það að nú í Hvíta húsinu er maður sem er farinn í massífar ofsóknir á hendur minnnihlutahópum og er með dómsdagshættuna um hryðjuverkamenn á lofti. Allt stjórnkerfið liggur undir líkt og á tímum McCarthy-ismans, „frelsið“ er aðeins fyrir þá sem aðhyllast „réttar“ skoðanir um frábærleika Bandaríkjanna og óvinirnir eru alls staðar.

Þetta minnir mann líka á það að hér á landi eru ráðherrar, þingmenn og áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins sem verja valdhafa Hvíta húsins líkt og McCarthy sem forverar þeirra tóku sér til fyrirmyndar þegar kom að því að refsa fólki fyrir skoðanir hér á landi með atvinnumissi og sköpun fjárhagsvandræða fyrir það fólk. Maður sér þessa þingmenn, ráðherra og áhrifamenn tala um að við eigum að gefa Trump séns, við eigum ekki að vera dónaleg við hann, við eigum ekki að kalla hann fasista þrátt fyrir öll merki um slíkt, við eigum ekki að gagnrýna Bandaríkin, við eigum ekki að láta þetta trufla baráttuna gegn hryðjuverkum og vestræna samvinnu, við eigum ekki að skipta okkur af mannréttindabrotum og mismunun meir en í kurteisislegu dægurhjali þingmanna í morgunþætti Bylgjunnar og allra síst eigum við að gera nokk til að styggja Sám frænda í vestri.

Alveg eins og í gamla daga þegar McCarthy-isminn reið um sveitir og lagði líf margra sakleysingja í rúst, alveg eins og á tímum Íraksstríðsins þegar farið var í ólöglegt innrásarstríð í nafni lyga og olíu og alveg eins og í hryðjuverkastríðinu þar sem mannréttindum er ýtt til hliðar í nafni „frelsis og öryggis“ með tilheyrandi ólögmætum fangelsun, mannránum, pyntingum og morðum á heilu brúðkaupsveislunum.

En vitið til.

Eftir 30-40 ár mun einhver áhrifamaðurinn innan Sjálfstæðisflokksins skrifa angurværa grein um hvað Trump hafi nú gert góða hluti fyrir heiminn og þessir múslimar hafi nú haft það þrælfínt í útlegðinni, fangabúðum og pyntingafangelsum hans.

Þeir hafi fengð svo góðan mexikóskan mat að borða í París.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu