Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kosningabaráttan og Pírataútspilið

Síðasta vika er búin að vera frekar skrítin vika í íslenskri pólitík fyrir okkur sem fylgist með utan flokka.

Samfylkingin er búin að vera að rífast innbyrðis um hver eigi sök á lágu fylgi í stað þess að leita leiða til að auka það að nýju, fjölmiðill reyndi að gera stórhneykslismál út úr því að að ritari Samfylkingarinnar hefði sagt orðljótasta kvenfyrirlitningargaur landsins að fokka sér í ritdeilu um að þingkona hefði gefið barni á brjóst meðan hún talaði fyrir því að auðvelda brottrekstur hælisleitenda úr landi, fyrrum formaður Framsóknar afhjúpaði það að hann væri alveg hroðalegur í tölvumálum og að hann væri ekki einu sinni búinn að skila fartölvu til stjórnarráðsins þrátt fyrir að hafa hætt þar fyrir mörgum mánuðum. Ekki nóg um það heldur virtist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að fara að keyra á þeim kosningaáróðri að auðræðisformaðurinn væri nú mennskur kökuskreytari eftir allt saman, skítt með alla hans ljótu, spilltu og hrokafullu sögu sem erfðaprins Engeyjarflokksins.

Svo hneykslumst við á öðrum þjóðum fyrir vitleysuna þar.

En til allrar hamingju þá komst smávit í vitleysuna þegar Íslenska Þjóðfylkingin sprengdi sjálfa sig í loft upp og góðan hluta kjósenda sinna með sér. Landinn að mestu leyti hafði haft vit á því að halda sig frá þessari öfgafullu rasistahreyfingu sem sprottið hafði upp úr ölæði í Kópavoginum eftir símatíma Útvarps Sögu.

En hugsanlega hefði þetta haldist á sömu nótum að vitleysan með aðstoð Vísis og Eyjunnar, hefði haldist hærra á lofti heldur en málefnaleg kosningabaráttu um stóru málin ef Píratar hefðu ekki komið ágætis útspil um kosningabandalag í dag sem vonandi dregur úr þessu rugli en umfram allt minnir okkur á eitt:

Við erum að fara í kosningar til að gera upp  við spillinguna, Panamaskjölin, lygarnar, skattaundanskotin og endurreisa stoðir samfélagsins eftir þau hroðaverk sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn unnu á kjörtímabilinu.

Við erum nefnilega ekki að fara að kjósa um hver skreytir flottustu kökuna eða hvort að Simmi hafi fengið tölvuvírus í tölvuna sem hann neitar að skila stjórnarráðinu.

Stóru málin, munið þið?

Píratar drógu nefnilega fram um leið stóru málin inn í þetta útspil sitt: nýja stjórnarskrá, auðlindagjöld til þjóðarinnar en ekki sægreifa, endurreisn heilbrigðiskerfisins og svo tvö mál sem eru nauðsyn þ.e. að auka aðkomu almennings að ákvörðunartöku og síðast en ekki síst að endurvekja traust og tækla spillingu.

Traustið er nefnilega nánast dautt hér á landi eftir Hrunið og Panama-skjölin, spillingin stakk það svo oft með aflandseyjahníf að það rétt svo tórir í öndunarvel á gjörgæslunni.

Sjálfur myndi ég reyndar bæta við þennan lista að það er nauðsyn að endurreisa menntakerfið sem er illa haldið eftir síendurteknar árásir ríkisstjórnarinnar, endurreisa RÚV sem var refsað grimmilega fyrir fréttaflutning sem ríkisstjórninni hugnaðist ekki, endurreisa vísindastofnanir sem hafa orðið illa úti vegna niðurskurðar, endurreisa samgöngukerfi og endurreisa hvað annað sem dólgafrjálshyggjustefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur einbeitt sé að því að eyðileggja.

Æi, bara endurræsum allt þetta sem var eitt sinn gott eða á leið í góðar áttir. Við höfum alveg efni á því og ef ekk þá sækjum við féð til hinna ríku sérhagsmunaafla.

En þetta útspil Pírata er ekki bara gott innlegg inn í það að færa kosningabaráttu í átt að málefnum heldur er þetta einnig gott fyrir okkur óákveðnu kjósendurna. Við sjáum núna þá hverjir eru tilbúnir til þess að fara í kosningabandalag sem er byggt á frekar einföldum atriðum og önnur atriði væntanlega lögð til hliðar eða sátt náð um þau.

Þetta stillir reyndar öðrum flokkum líka aðeins upp við vegg með það að sýna á það spil hvort þeir vilji starfa yfir höfuð með Sjálfstæðisflokki og Framsókn eftir allt það sem á hefur gengið. VG hefur reyndar gefið það út að það sé nú ekki kostur, Samfylkingin hefur svo sem gert það líka en ekki Björt Framtíð og einhverjir frambjóðendur Viðreisnar hafa sagt að það komi ekki til greina að hoppa inn í trekant með ríkisstjórnarflokkunum. Samt benda fyrstu viðbrögð formanns Viðreisnar til þess að trekanturinn sé alveg möguleiki enda er heimataugin í Sjálfstæðisflokksins sterk meðal frambjóðenda þar.

Þetta útspil ætti því vonandi að skila því í besta falli að við sem erum óákveðin getum valið hver er besti kosturinn til að leiða endurreisnina eða hið minnsta að við sjáum hverjir eru tilbúnir til þess að leggja prinsippin til hliðar ef það skilar þeim að kjötkötlunum með Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

Reyndar mættu þeir stjórnmálamenn sem íhuga að vera opnir í alla enda íhuga það að hver sá sem fer í samstarf með Sjálfstæðisflokki endar alltaf sem óvinsæli flokkurinn fyrir að svíkja kosningaloforð eða ná ekki að efna þau af viti. Sjálfstæðisflokkurinn passar sig nefnilega á því að sleppa ekki takinu af fjármálaráðuneytinu sem er miskunnarlaust beitt til þess að kæfa allar slíkar efndir sem hugnast flokknum ekki og um leið er ráðuneytinu beitt til að setja samstarfsflokkinn í það að sitja upp með skömmina með óvinsælar niðurskurðaraðgerðir sem voru ákveðnar í Excel-skjali formanns Sjálfstæðisflokksins.

Enginn flokkur hefur efni á því að starfa með Sjálfstæðisflokknum.

Sagan hefur sýnt það.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu