Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hin dramatíska stjórnmálahelgi

Það er óhætt að kalla nýliðna helgi dramatíska helgi í pólitíkinni hjá mörgum flokkum og jafnvel svo að það þyrfti að senda stríðsfréttaritara á svæðið næst þegar er fundað þar.

Fyrst riðu Píratar á dramavaðið með lítt skiljanlegum deilum um þrýsting þingmanns á prófkjörslistabreytingar í NV-kjördæmi eftir klúðurslegt og umdeilt prófkjör þar. Deilurnar virtust sprottnar upp úr tveggja manna tali sem endaði með afsökunarbeiðni þess sem bar fram ásakanirnar og virkaði sem misskilningur sem rataði beint til fjölmiðla. Það var þó helst Eyjan sem skrifaði fjölmargar fréttir upp úr þessum fljótleystu deilum sem er ólíkt því þegar kom að stórdramatísku flokksþingi Framsóknarflokksins sem fékk eina frétt á Eyjunni. Líklegast hefur Björn Ingi ekki viljað brjóta „omerta“ flokksins enda giskar maður á að afleiðingin hefði verið sú að skrúfað hefði veriðfyrir hið dularfulla peningaflæði sem heldur Vefpressumiðlum gangandi þrátt fyrir síendurtekin taprekstur.

Fregnirnar af flokksþingi Framsóknarflokksins voru eins og efniviður í tragíkomedíu eða fulldramatískan farsa miðað við það sem gekk á þar(NB: ef þið lesið Eyjuna eingöngu misstuð þið af þeim). Formaður flokksins stormar upp í pontu, tilkynnir að erlendir kröfuhafar hafi fylgt honum á eftir í útlöndum, viljað hitta hann í dularfullum bjálkarkofa í Norður-Dakóta, síminn hans hleraður og svo brotist inn í tölvuna hans. Þetta hljómar eins og efni í Jason Bourne eftirhermureyfara ef það væri ekki fyrir eitt:

Konan hans er erlendur kröfuhafi í gegnum félagið Wintris.

Það er því  frekar augljóst að hann er að tala um konuna sína sem fylgdi honum á eftir í útlöndum, stakk upp á kósíkvöldi fyrir framan arineld í fjallakofa í N-Dakóta, hlustaði á símtölin við hlið hans og hefur líklegast giskað á lykilorðið hans þegar hún var að tékka á stöðunni á Tortóla. Hinir dularfullu menn í rykfrökkum sem reyndu víst líka að tæla hann upp á hótelherbergi í London virka því meir sem enn lygin frá manni sem kann ekkert annað en að hrópa hátt til að enginn taki eftir því að hann hafi ekkert fram að færa nema óheilindi.

En þetta var ekki það eina sem hann lét út úr sér í stormviðri pontunnar heldur fór hann hamförum um stríð, riddaraliðsferninga og líkti baráttunni framundan við orustuna um Waterloo líkt og hann væri einhver hershöfðingi á vígvelli.

Formaðurinn er sam ekki hershöfðingi, hvað þá sómalskur stríðsherra heldur einungis tækifærissinnaður óheilindamaður sem tókst að gabba fólk til að setja sig í valdastóla og í þokkabót virðist miðað við yfirlýsingar um heimsmet hverskonar, stórmennskulegar yfirlýsingar um að hafa lagt fjármálakerfi heimsins einn síns liðs og stríðstal um Waterloo, halda að hann sé Napóleon endurfæddur.

Allt þetta óráðstal og óheilindaviðri sem hafa fylgt þessum síðustu mánuðum formannsins skilaði því allavega að varaformaðurinn stóíski fékk nóg og sagðist ekki getað tekið setið áfram við óbreytta stjórn vegna trúnaðarbrests. Það olli gremjulegum viðbrögðum trúfélagsins í kringum formanninn enda byrjaði helsti prestur þess að gíra sig upp á spænska rannsóknaréttarstigið að hætti skagfirskra költa kenndum við kaupfélag.

Velflestir aðrir sem standa fyrir utan formannsköltið og fyrir utan Framsókn eru þó búnir að sjá að þetta eru síðustu dagarnir í byrginu hans, brátt verður hann sendur í endanlega útlegð til okkar eigin Elbu eða nánar tiltekið:

Eyjar.

Þar ætti hann vel heima um alla Sjálfstæðismennina sem kusu populískan útlendingahatara úr Oddfellows í annað sæti dramatíska prófkjörsins sem átti sér stað á Suðurlandi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Þar á bæ fundu rasistarnir í Sjálfstæðisflokknum sér sinn mann í karlaveldinu og hentu á brott þingkonu sem náði út fyrir flokksramman og hefði getað fiskað eitthvað.

En nei, hún greiddi atkvæði með þingrofi og stóð fyrir hinu ófyrirgefanlega þ.e. að koma á nýjum útlendingalögum sem hefur fengið hvíta, aríska karlmenn í jakkafötum og gröfukalla til að missa sig af rasískri bræði um að þetta muni opna landið fyrir flóttamönnum, innflytjendum og múslimum sem munu koma hér á íslömsku ríki í anda kristilega ríkisins sem Sjálfstæðismenn í Grafarvogi lögðu til að hér yrði komið á. Maður heyrði þá nánast öskra úr prófkjörsklefanum alla leið til Reykjavíkur líkt og það væru ástandsárin:

„Þessar helvítis kellingar eru alltaf að hlaupa á eftir þessum útlendingum!“

Hinni konunni í Suðurlandi Sjálfstæðisflokksins var svo rutt í burt eins og hún væri rammaáætlun í höndunum á atvinnuveganefnd alþingis en þó með skiljanlegri formerkjum þar sem hún hafði staðið það hroðalega sem ráðherra að landinn til hægri, vinstri og á miðju getur sameinast um í fögnuði um að hún sé farin eftir þetta kjörtímabil.

Konurnar í Sjálfstæðisflokknum geta samt lítið við unað þó þeirra slöppustu hafi verið ýtt á brott miðað við karlana sem var hleypt í fjöldatali framfyrir þær í prófkjörunum. Ekki nóg með að fulltrúa popúlísks útlendingahaturs hafi verið tryggt öruggt þingsæti á Suðurlandi heldur var einnig latri löggu sem hefur það eitt til málanna lagt að passa upp á valdastóll innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins með lygum upp á blaðamann og lítilsvirt lögin um leið, troðið í þriðja sætið þar. Líklegast var það samt vegna þess að hann hefur lagt fram þingmannsfrumvarp um eina hugsjónamál Sjálfstæðisflokksins:

Brennivín í búðir fákeppnismarkaðarins.

Konum reiddi heldur ekki vel af í kjördæmi flokksformannsins sem mætti með meiri áhyggjusvip í viðtöl út af því heldur en þegar hann var gripinn við það að vera með skattaundanskotsfélög á sjóræningjaeyjum. Einu þingkonunni var sparkað burt án sýnilegra ástæðna nema kannski það að hafa mætt í galllabuxum í þingsal og í staðinn var þetta orðið að einsleitu garðbæsku karlaliði í sérhagsmunagæslu þar sem konum var troðið í kurteisissæti neðarlega. Formaðurinn tjáði sig líka á þeim nótum að þessu þyrfti að breyta en svo væri það erfitt í ljósi þess að það yrði að taka tillit til þess að þetta væri nú vilji kjósenda þarna á ferð.

Einmitt.

Vilji kjósenda.

Síðan hvenær hefur slíkt verið erfitt vandamál fyrir Bjarna Ben og Sjálfstæðismenn yfir höfuð?

Það er nú ekki eins og þeir hafi virt vilja kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá frá október 2012 eða þá kjósendur sem Bjarni Ben o.fl. Sjálfstæðismenn sögðu við að það yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald ESB-viðræðna.

En hvað sem vilja kjósenda líður þá er það ljóst að stór hluti prófkjörskjósenda Sjálfstæðisflokksins eru menn sem vilja ekki  konur að því virðist. Allavega virðist stór hluti flokksmanna telja að karlar séu einir hæfir til þings og konur séu meira gluggaskraut á listum líkt og leiðtogi þeirra í Hádegismóum orðaði það svo af stækri kvenfyrirlitningu Sjálfstæðismannsins um formann Vinstri Grænna. Þessi prófkjör eru þó ekki eina sönnun þess heldur hefur þetta komið það oft fram í gegnum árin í prófkjörum og orðræðu að maður er eiginlega steinhissa á því að konur skuli yfirhöfuð vilja vera með í þessum „good ole boys“-klúbbi sem er alveg eins í kauphallarfyrirtækjum.

Eða hvað eruð það annars margar konur sem reka skráð fyrirtæki í Kauphöllinni?

En jæja, síðasta dramatík helgarinnar.

Samfylkingin.

Strax og prófkjörið hófst þá byrjuðu ásakanir um smölun, tölvupóstur Össurar frá 2012 úr ráðherranetfangi birt þar sem hann biðlar til innflytjenda um atkvæði og fleira í þeim dúr.

Áður en lengra er haldið þá ætla ég að gera smájátningu.

Ég skráði mig á þennan stuðningsmannalista Samfylkingar til að kjósa í þessu prófkjöri: annarsvegar vegna þess að ég vildi sjá þar gott fólk verða ofan á þó ég viti ekki hvaða flokk ég kjósi í haust og svo hinsvegar að sjá hvernig þessi rafræna kosning færi fram sem er mjög áhugavert fyrir stjórnmálaáhugamanninn. Ferlið sem slíkt var þannig að maður skráði sig  fyrstí gegnum heimasíðu og þurfti svo að staðfesta með svarpósti(ekki með hlekk eins og flestir kannast við með póstlista). Þegar kom að prófkjörinu sjálfu þá skráði maður sig inn með Íslyklinum sem ég þurfti að fá sendan í heimabankann og eftir það þurfti maður að raða átta manneskjum á lista áður en maður gat skilað atkvæðinu. Það var því nokkura mínútna athöfn að kjósa í sjálfu prófkjörinu plús Íslykilsbiðin.

Af því að þetta var talsvert ferli þá fékk ég efasemdir um að taktísk smölun hefði náð tilsettum árangri þó Árni Páll og Össur hafi sigrað í sínum kjördæmum. Aftur á móti er nokkuð öruggt að Samfylkingin á við sama vandamál að stríða og Sjálfstæðisflokkurinn, „good ole boys“-lið sem er vinsælir meðal ákveðins hóps flokksmanna fyrir eitthvað en ná ekki mikið út fyrir til að heilla kjósendur. Árni Páll situr uppi með hið ófyrirgefanlega þ.e. að hafa tekið upp á því að sjálfdáðum að slátra nýrri stjórnarskrá í von um að geta orðið bólfélagi Bjarna Ben í ríkisstjórnarbeddanum og fáir tengja Árna við nokkuð annað en svokölluð Árna Páls-lög. Össur er svo með sína löngu fortíð sem stjórnmálamaður stóriðjunnar sem hafði verið í Hrunstjórninni, mörgum finnst hann eigi að vera hættur fyrir löngu og smalamennska hans í prófkjörum til að halda sínum valdastól er orðin fyrir löngu landsþekkt með þeim hætti að mörgum þykir hann óheiðarlegur.

Það bætti heldur ekki dramatíkina að þegar reglur um aldursdreifingu kikkuðu inn hjá Samfylkingunni þá duttu út öflugir þingmenn og annað fólk sem var mun hæfara til að sækja atkvæði, fékk ekki brautargengi. Þetta á eftir að verða Samfylkingunni dýrkeypt tilraunastarfsemi til viðbótar við slakt gengi flokksins sem Össur og Árni Páll munu lítið gera fyrir. Það verður líka á þungan að sækja fyrir Samfylkinguna að ná til þeirra sem vonuðustu eftir endurnýjun og líta nú á að gamlir refir hafi keypt sér fylgi með smalamennsku.

Það verður því að segjast að þessi prófkjör helgarinnar hafa allavega skilað því að líklegast er þetta endalok prófkjara í núverandi mynd. Átök, misrétti, klúður og óheiðarleiki eru of mikill fylgifiskur þeirra til að þau borgi sig þegar svona stutt er í kosningar. Hugsanlega hefði verið betra fyrir alla flokka að fara sömu leið og Viðreisn og VG þ.e. raða upp á lista án mikils fjárausturs, drama og átaka sem hafa skilað neikvæðri umræðu rétt fyrir kosningar.

Nema kannski hefði einn flokkur gott af því að fara í slíkan slag.

Björt framtíð.

Þar virðist fólk ætla að sofa af sér alla stjórnmálabaráttu.

Líkt og allt kjörtímabilið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni