Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Et tu, Proppé?

Manni finnst komandi stjórn CAD-flokkana eitthvað svo fyrirsjáanlegur og dapurlegur endir á tilraunum til umbóta á íslensku samfélagi eftir Hrun, síðasta kjörtímabil og Panamaskjöl en um leið var þetta kannski fyrirsjáanlegt svekkelsi sem maður neitaði að horfast í augun við.

Um leið og það var talið upp úr kjörkassanum þá fagnaði Viðreisnarfólk stórsigri hægri manna á Íslandi líkt og Þorsteinn Víglundsson orðaði það og hið falska andlit „miðjuflokks“ hvarf um leið. Það sást strax í soltna skolta dólgafrjálshyggjunnar á bak við og upp kom það sem flestir vissu fyrir kosningar: Viðreisn var ekkert annað en aflandsfélag Sjálfstæðisflokksins á Seychelleseyjum sem Bjarni Ben hafði gleymt PIN-inu á og nú var það á leið heim í heitt ból Panamaprinsins. Það var því öruggt að Sjálfstæðisflokkurinn yrði með 28 þingmenn en spurningin var hver ætti að vera hækjan að endingu þar sem Framsóknaflokkur var „out“ út af Simma og því að allavega 7 eða fleiri þingmenn af þessum 28 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins geta ekki starfað með Framsókn.

Enter Björt Framtíð.

Björt Framtíð hefur verið að máta sig sem nýr Framsóknaflokkur(góður hluti flokksins eru reyndar gamlir Framsóknarmenn) í sveitastjórnum sem hefur yfirleitt hoppað í rúmið með Sjálfstæðisflokknum um leið og fingrunum er smellt eftir kosningar. Reykjavík er þó undantekning á þessu bólfélagahlutverki en þar spilar inn í að líklegast hefði þá Björt Framtíð hefði þurft að veita Framsókn og rasistavinum brautargengi svo samstarf til vinstri varð þar ofan á. Flokkurinn var aftur á móti að hrynja á landsvísu enda það eina sýnilega sem flokkurinn stóð fyrir í huga fólks var að vilja breyta klukkunni og færa fimmtudagsfríin fram að helgi(betra reyndar að bæta einum aukafrídegi þar við). Svo komu búvörusamningarnir og það reddaði þeim athyglina á réttum tíma fyrir kosningar.

Í kosningabaráttunni rak Björt Framtíð kosningaherferð sem gekk út á það að þau vildu enga sérhagsmuni, bara almannahagsmuni. Þar var talað fjálglega um kerfisbreytingar og annað í þeim dúr í auglýsingum en samt þegar maður varð var við frambjóðendur í sjónvarpssal þá mátti stundum heyra annan tón. Einn fyrrum þingmaður flokksins var farinn að tala skyndilega um að það ætti nú lítið að breyta kvótakerfinu heldur aðeins prófa í mesta lagi uppboðsleið á nýjum fisktegundum sem er nú frekar sjaldgæft að sé byrjað að nýta. Manni byrjaði þá að gruna að það væri svolítið verið að gera sig tilkippilega fyrir samstarf með Sjálfstæðisflokknum þarna því til viðbótar voru ofsafengin viðbrögð sumra í Bjartri Framtíð við misheppnaðri tilraun Pírata um kosningabandalag, algjörlega út af kortinu. Eiginlega flaug manni það í hug að þau hefðu verið byrjuð að máta sig við samstarf við Sjálfstæðisflokkinn vegna betra gengis og ákveðið vísvitandi að hunda þá orsakir kosningana: Panamaskjölin sem sýndu umheiminum gríðarlega spillingu á Íslandi og ráðherrana þrjá sem finnast þar.

En Óttarr Proppé sló þær pælingar aðeins út af borðinu þegar hann fundaði á Lækjarbrekku og gaf það í skyn bæði fyrir og eftir kosningar að honum fannst það lítið spennandi að fara í stjórnarsamstarf með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum. Samt er hann núna skyndilega kominn á fullt við að  mynda hér mestu hægristjórn lýðveldistímans og ætlar sér að fara að leiða Bjarna Ben til valda enn á ný þrátt fyrir þátt hans í Panamaskjölunum og alla þá spillingu, sérhagsmunagæslu og sóðalegheit síðasta kjörtímabils.

Það er þessi tvöfeldni og klækjastjórnmálaiðkun sem gerir þetta að óskiljanlegu svekkelsi og reiði fólks út í Óttarr Proppé þessa stundina því hann hefur talað með tungum tveimur og svikið þær væntingar sem fólk gerði til hans óháð því hvort það hafi kosið Bjarta Framtíð eða ekki.

Nú held ég sjálfur að Óttarr sé fínasti náungi og heilsteyptur en hvað hann er að hugsa í þessu er erfitt að átta sig á svona í ljósi þessarar tvöfeldni. Kannski hefur hann blindast af þeirri hugsun að Björt Framtíð gæti náð einhverjum áhrifum og breytingum með því að vera hækja 28 þingmanna Sjálfstæðisflokksins en gleymt að glugga í sögubækur samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þar er nefnilega ljóst við skoðun að leiðin til helvítis er vörðuð góðum tilgangi og þegar á áfangastað er komið þá kemur það upp úr kafinu að Sjálfstæðisflokkurinn er D-jöfullinn þegar kemur að því að beygja og brjóta hin góðu áform samstarfsflokkana. Fjármálaráðuneytinu er misbeitt til að koma í veg fyrir það sem er Sjálfstæðismönnum á móti skapi og um leið eru kosningaloforð samstarfsflokksins geld þannig að hann situr uppi með skömmina en ekki Sjálfstæðismenn. Menn ættu því að varast það að halda að þeir séu Sæmundur Fróði að díla við kölska íslenskra þjóðsagna þegar kemur að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn heldur eiga þeir frekar að gera ráð fyrir því að um sé að ræða D-jöful myrkari miðaldarþjóðsagna sem svíkur samkomulagið með orðaleik lagateknískra smádjöfla á borð við þá sem finnast í Lögmannafélaginu.

Það er líka ljóst að Sjálfstæðismenn eru búnir að hugsa fyrir því hvernig skal gelda Bjarta Framtíð fyrirfram og maður þarf ekki annað en átta sig á þeim orðum Benedikts í litla Sjálfstæðisflokknum að Viðreisn hafi ekki viljað inn sem hækja í áframhaldandi stjórn. Þar er nefnilega hin lagatekníska klásúla um að það segir ekkert um að Framsókn geti ekki verið hluti af þessari stjórn sem utankomandi hækja. Væntanlega er búið að veifa því að til að veikja Bjarta Framtíð þá verði Framsókn kippt inn í staðinn og líklegast verður það gert um leið og samkomulag um Evrópumálin hefur verið framkvæmt. Þá mun Björt Framtíð sitja út í kuldanum líkt og Ólafur F. Magnússon sem Sjálfstæðismenn misnotuðu til að tryggja sér völdin, Framsókn verður kippt inn í staðinn við mikla gleði Binga á Vefpressunni og „stöðugleikinn“ verður þannig loks tryggður með 28 manna sameinuðum Sjálfstæðisflokki.

En Óttarr og Björt Framtíð.

Tja, þau munu þurrkast út í næstu kosningum sama hvað.

Það er nefnilega nokkuð til í gagnrýninni á þennan trekant sem er að myndast og þó menn geri sér upp uppgerðarhneykslun til að afvegaleiða umræðuna frá því sem Jón Þór Pírati sagði frekar beinskeytt þá er nokkuð mikið til í því.

Óttarr og félagar í Bjartri Framtíð verða nefnileg fyrirlitin og hötuð fyrir aðkomu sína að ljótum verkum Sjálfstæðisflokksins sem líkt og Jón Þór taldi upp geta t.d. innihaldið lög á verkföll, áframhaldandi einkavinavæðingu bankanna, einkavinavæðingu heilbrigðiskerfis og menntakerfis eftir áframhaldandi niðurskurð inn fyrir bein, frekari lækkun veiðigjalda og fyrir það að viðhalda hér spillingu Panamaprinsins Bjarna Ben sem ætti að hafa sagt af sér.

Samstarf við Sjálfstæðisflokksskrattann í von um umbætur krefst einfaldlega þess að þú þarft að taka þátt í ýmsum ógeðfelldum hlutum sem þú situr upp með skömmina af en ekki skrattinn sjálfur sem sveiflar gulrót um að þú fáir síðar meir einhverju fram, bara ef þú tekur þátt í þessu skítverki fyrir hann.

Reynslan hefur nefnilega sýnt það margoft að sama hvað gott fólk með trú á að hægt sé að breyta hlutunum með samstarfi við Sjálfstæðisflokksskrattann þá segir sagan nefnilega okkur við hverju er að búast við af slíku: þú breytir skrattanum ekki, hann breytir þér til hins verra.

Það gera flestir kjósendur sér grein fyrir og því mun ekki Sjálfstæðisflokksskrattinn sitja uppi með afleiðingar samstarfsins. Aftur á móti mun svört fortíð samstarfsins sitja í reiðum kjósendum sem munu sitja uppi með sviknar væntingar og brostna breytingardrauma með eina spurningu á vör:

Et tu, Proppé?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu