Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eftir að kosningarykið fer að setjast

Maður getur ekki annað en verið fullur vonbrigða yfir úrslitum kosninganna en „svona er lýðræðið“ er víst það sem maður á að hugga sig með.

Það breytir því þó ekki að það er margt umhugsunarvert og áhugavert með þessar kosningar ef maður setur sig í einhverskonar rýnisgír nú þegar rykið er byrjað að setjast. Hér á eftir fylgja ýmsar punktar og vangaveltur um þetta allt saman en byrjum á kosningabaráttunni.

VG náði góðum sigri út á góða kosningabaráttu, nýttu sér auglýsingarstofu og stóðu fyrir góðri herferð. Þau eru farin að kunna þetta á þeim bænum líkt og í síðustu kosningum þegar þau voru með kosningaherferð sem gekk út á einfalt atriði: þau voru stolt af því að hafa verið í stjórn og auglýstu hvað þau hefðu gert en skömmuðust sín ekki fyrir það eins og Samfylkingin.

Hvað Samfylkinguna varðar þá er öllum ljóst að það er þó nokkur stór vandamál á þeim bæ sem flokksfólk þar þarf að setjast og horfast í augun við. Þau vandamál eru eiginlega efni í sér pistil en kosningaherferð þeirra náði ekki neinu flugi og kosningastefnan náði aldrei að komast í fókus meðal fólks sem hafði meiri áhuga á samstarfshugmyndum Pírata sem náðu að fanga athygli með sínu stönti.

Mér leist vel á stönt Pírata um að opna á viðræður fyrir kosningar og vera aðeins opin í þessu. Eftirá að hyggja þá var þetta stönt stór mistök m.a. vegna þess að íslenskir kjósendur hafa almennt ekki náð lýðræðislegum þroska fyrir svona fyrirfram bandalög og um leið færði þetta Sjálfstæðisflokknum stórt áróðursvopn. Þetta nýttist nefnilega til þess að draga upp vinstri grýluna sem er einhver lífseigasta mýta hér á landi þegar hlutirnir eru skoðaðir í sögulegu samhengi og litið til aðstæðna þegar þessar örfáu vinstri stjórnir hafa verið. Fjölmiðlar sem eru hallir undir Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn þ.e. 365 miðlar, Morgunblaðið og Vefpressumiðlarnir tóku fullan þátt í þessu enda hafa eigendur þeirra miðla mikla fjárhagslega hagsmuni tengda því að viðhalda stöðugleika spillingar og sérhagsmunagæslu.

Sjálfstæðisflokkurinn keyrði tvennskonar baráttu. Það var þessi sem var opinber með Bjarna að skreyta köku og þykjast vera manneskja þó það hafi farið að hverfa í umræðuþáttum þar sem hann lék yfirgangsama freka kallinn sem hreytti hroka og fyrirlitningu í allar áttir til að kæfa niður. Þetta virkaði þar sem hann virkaði „svo sætur“ annarsvegar og svo hinsvegar kom þetta í veg fyrir það að spyrlar færu nú að ræða Panamaskjölin og öll óheilindi hans og Sjálfstæðismanna almennt. Maður sá það t.d. í leiðtogaþættinum á RÚV að þar hafði verið tekin ákvörðun um að spyrja Bjarna ekki erfiðra spurninga af ótta við hugsanlegar hefndaraðgerðir Sjálfstæðismanna eftir kosningar heldur var látið sem að ástæðan fyrir kosningunum hefði aldrei gerst.

Hin barátta Sjálfstæðismanna var mun subbulegri og fór fram með hræðsluáróðri, gervisamtökum á borð við Samtök skattgreiðenda, Smári McCarthy var sérstaklega tekin út fyrir svigann og hamast á honum líkt og Sjálfstæðismenn hömuðust á honum eins og eineltishrottar í „let them deny it“-herferð með Viðskiptablaðinu sínu og öðrum ógeðisveitum harða hægrisins. Nær öll sóðabrögðin voru notuð þó SUS-arar hafi ekki farið í það að drösla Alzheimers-sjúklingum bókstaflega inn í kjörklefann til að kjósa flokkinn líkt og gerðist í einhverjum kosningum á ógnarstjórnunartímabili Davíðs Oddsonar.

Viðreisn stökk líka inn í þetta mynstur að ráðast gegn Smára McCarthy enda kominn með almannatengil sem kosningastjóra en sá líkt og aðrir í þeirri stétt, er þekktur fyrir að beita subbuskap og persónuárásum í áróðri. Eitthvað hikstaði þetta samt á að fara alveg á þessa braut hjá þeim enda er maður ekki viss um að þetta rýmaði vel við boðskapinn um að þau væru að heyja málefnalega baráttu með sínu myntráði sem maður skildi aldrei almennilega. Framsókn reyndi eitthvað svipað líka með fótboltamyndbandinu sínu en fékk skammir fyrir frá fötluðum og líka þeim sem finnst hallærislegt að vera með fótboltasamlíkingar við stjórnmál og upphafningu á kostnað annarra.

Hvað örflokkana varðar þá náði Flokkur fólksins mikið inn á svipaðri taktík og VG og Sjálfstæðisflokkur þ.e. að veifa aðallega einni manneskju í fjölmiðlum enda mælsk kona. Dögun fór í stórskrítna vegferð með því að setja Sturla trukkabílstjóra efstan á einn lista og henda Salman Tamini út í staðinn því Sturla vildi víst ekki vinna með honum. Svo smelltu þau Axel Pétur nokkrum kenndan við Frelsi TV á lista hjá sér og þó þau væru með umræðuverðar hugmyndir þá var þetta dautt eftir þetta og fleira mannaval sem sópaði ekkert að sér þó Ragnar Þór hafi staðið þar upp úr. Skrítni brandarinn um ríkisstjórnarsamstarf við D og B náði heldur ekki að vekja neina sérstaka athygli og fyrra fylgi hvarf. Íslenska þjóðfylkingin náði sér í stjórnmálaverðlaun Darwins með misheppnaðri sjálfsmorðsárás á sjálft sig og verður gott skemmtiefni í réttarsölum næstu árin.

En þá eru það kosningaúrslitin og það allt.

Á yfirborðinu og út á við má segja sem svo að íslenskir kjósendur hafi ákveðið að endurnýja umboð allra Panamaskjalaráðherrana og refsa aðal jafnaðarmannaflokk lansins vegna þess að gjaldkeri flokksins sagði af sér vegna Panamaskjalanna. Þetta virkar frekar idjótísk niðurstaða í ljósi þess hversvegna var blásið til kosninga en kannski skiljanleg í ljósi þess að Íslendingar virðast sætta sig við hluti í stjórnmálum sem þeim myndi ekki hugnast í daglegum samskiptum við óheiðarlega iðnaðarmenn eða fasteignasala. Manni finnst þetta líka verulega vandræðalegt í ljósi þess að her fjölmiðlamanna erlendis frá var að fylgjast með kosningunum og við fokkuðum endanlega upp krúttlegri ímynd Inspired by Iceland enda er þetta eitthvað sem gæti bara gerst í fáum þriðja heimsríkjum að spilltasta fólk landsins yrði endurkjörið þrátt fyrir öll þeirra ljótu voðaverk.

En úrslitin eru ekki svona einföld eins og þau líta út á við. Framsókn galt afhroð og hluti fylgis þeirra leitaði heim til Sjálfstæðisflokksins en aðrir fóru eitthvert annað. Sjálfstæðisflokkurinn bætir í raun við örlitlu fylgi en báðir þessir njóta þess hversu óréttlátt kosningakerfið er með sínu misvægi og kjördæmaskipingu.  Miðað  við prósentutölur þá hefði Sjálfstæðisflokkurinn að hámarki bætt við sig einum manni og jafnvel verið með sama fjölda og síðast. Þetta er því enginn sérstakur sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn í reynd.

Píratar, VG og Viðreisn eru í reynd sigurvegararnir miðað við kosningarnar. Píratar nær þrefalda fylgi sitt og uppskera 7 þingmenn til viðbótar við sína þrjá fyrir og VG bætir við sig þremur þingmönnum til viðbótar við sína sjö. Viðreisn nær til sín fylgi hægrikrata og Sjálfstæðismanna sem fóru yfir til Framsóknar en langar ekki að snúa heim til að vera áhrifalausir í faðmi Davíðs, Bjarna og juntunnar sem raunverulega stjórnar flokknum. Björt Framtíð tapar aðeins en heldur sér inn á þingi og Samfylkingin bíður afhroð. Persónulega finnst mér það mjög dapurt að Sigríður Ingibjörg hafi dottið út af þingi því hún var heil hugsjónakona og vonandi snýr hún aftur einn daginn á þennan vettvang.

En hvernig eftir að púslast úr þessum úrslitum í stjórn verður líklegast ein mesta kaffistofuumræða næstu vikurnar. Þetta er nefnilega flókin staða sem er í gangi út af mörgum hlutum.

Maður sér marga t.d. nefna það að augljóslega liggi fyrir að BCD vinni saman. Það er þó tvennt sem eyðileggur þetta. Annarsvegar er B óstjórntækt þar sem þetta er í raun tveir flokkar: Sigmundarlið sem hyggur á hefndir og hjaðningsvíg vegna formannskjörs Sigurðs Inga og hans liðs, sem mun tryggja það að flokkurinn verður nánast óstarfhæfur í þessu samstarfi. Ég á líka erfitt með að sjá Eygló Harðar vera eitthvað þæga miðað við hvernig Sjálfstæðismenn fóru með hana í velferðarmálaráðuneytinu. Hisnvegar hefur Viðreisn afneitað algjörlega þessu samstarfi bæði fyrir og eftir kosnignar þó þeim hugnist það örugglega að gerast hækja Sjálfstæðisflokksins. Auk þess myndi Benedikt Jóhannesson sitja uppi sem lygari við kjósendur ef hann myndi hoppa inn í þetta samstarf. Það yrði reyndar líka banabiti Viðreisnar að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn enda yrði það sönnun á því að Viðreisn hafi bara verið ætlað að vera einhverskonar óánægjutilraun til að fá fram breytingar innan Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn myndi þá renna saman aftur við Sjálfstæðisflokkinn eftir þetta kjörtímabil og yrði ei meir svo. En ef af BCD yrði þá finnst manni samt liklegt að A yrði kippt inn með til að veikja áhrifin af innanhúserjum Framsóknar enda hefur Björt Framtíð verið að daðra aðeins við Sjálfstæðisflokkinn í kosningabaráttunni.

Mér finnst heldur ekki líklegt að VG og Sjálfstæðisflokkur fari í samstarf og einn lítinn flokk með. VG hefur gefið það út að þau vilja ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum né getur maður eiginlega séð þau starfa með harðlínuhægrinu. Áherslurnar eru líka svo ólíkar í mörgum málum. Píratar hafa líka sagt að þeir fari ekki í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og þeir myndu missa ákveðið traust kjósenda við það að hoppa i fangið á Panamaprinsinum og skattaundaskotssinnuðum stjórnmálamönnum hans.

Manni líst eiginlega mun betur á fimm flokka stjórn allra flokka nema núverandi ríkisstjórnarflokka enda hafa þeir ekkert lært af Panamaskjölunum né Hruninu. Það yrði því alvöru umbótastjórn sem brúaði bilið frá vinstri til hægri, myndi innleiða meiri málamiðlanir og sáttfýsi og auk þess yrði það ekki koss dauðans fyrir alla þessa flokka. Sá koss er að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum því sögulega séð þá taka samstarfsflokkarnir nær alltaf ef ekki alltaf, skellinn á samstarfinu. Það má m.a. rekja til þess að Sjálfstæðisflokkurinn setur samstarfsflokkinn í verri stöðu og notar síðan fjármálaráðuneytið til að gera honum erfiðara fyrir að efna stefnumál sín og annað í þeim dúr.

Manni finnst þó líklegri kostur að það verði mynduð minnihlutastjórn að lokum þar sem 2-3 flokkar eru í ráðuneytunum en þingið fari þá að stýra meir för og vinna í stað þess að vera færiband gúmmístimplunar á geðþóttafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Sigmundur gæti jafnvel þurft að fara að mæta til vinnu sem þingmaður en hugsanlega getur það verið pólitískur ómöguleiki.

En þetta á allt saman eftir að koma í ljós. Aftur á móti er hægt að draga tvær ályktanir af þessum kosningum og fyrri kosningum.

Þingkosningar eru nú fullreyndar sem tilraunir til umbóta og uppgjörs við hneykslismála stjórnmálamanna. Þetta gengur út á hver lofar flottast, hver lofar flestum jarðgöngum út á landi og hver lofar stærsta álverinu eða álíka. Ef íslenskur almenningur vill hafa raunveruleg áhrif eða refsa stjórnmálamönnum þá finnst manni eins og það sé mun vænlegra til árangurs að beita sömu brögðum og virka hingað til: vera með lobbýistasamtök eða sjávarútvegsfyrirtæki sem bera fé á þingmenn, kaupa sér fjölmiðil sem sér um hræðsluáróður og persónuárásir til varnar sínum málstað, notast við „maður þekkir mann“ til að þrýsta á þingmenn og ráðherra, smyrja vélina með greiðum, notast við yfirgangssemi freka kallsins og annað í þeim dúr. Einnig ættum við kjósendur í Reykjavík og SV-kjördæmi að skoða það að flytja lögheimili okkar út á landi rétt fyrir kosningar og fá þannig miklu meiri áhrif vegna misvægisins heldur en í okkar kjördæmum. Síðan eftir kosningar er hægt að flytja lögheimilið til baka og njóta þess vonandi að við styrktum umbótaflokka mun betur með þessum hætti.

Hin ályktunin er nú mun jákvæðari fyrir alla.

Stefnumál Íslensku Þjóðfylkingarinnar um að segja sig úr Schengen, segja sig frá EES-samningnum, herta innflytjendalöggjöf og það að banna moskur og íslam var nánast algjörlega hafnað af þjóðinni. Þessi mál eru bara hávær í símatíma Útvarps Sögu en velflestir Íslendingum eru algjörlega áhugalausir um að styðja við bakið á þessari öfgakenndu þjóðernisstefnu íblandaðri kristinni ofstækistrú og rasisma sem beint er gegn minnihlutahópum.

Því ber að fagna.

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu