Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þau verða öll að fara frá!

Ég sem og flestir sem hafa þurft að sinna vinnu í dag ólíkt stjórnarþingmönnum, hef verið aðeins ringlaður á því hvað er að gerast hjá Tortólastjórninni.

Eitt er maður þó ekki ringlaður með.

Það á að reyna að halda völdum sama hvað.

Afsögn Sigmundar er nefnilega ákveðin blekking. Sigmundur verður enn þingmaður og hann verður enn formaður flokksins á þingi.

Það eina sem breytist er að hann verður skuggastjórnandi líkt Jón Ásgeir á 365 miðlum eða stjórnarfólkið í Tortólafyrirtækjum þeirra Bjarna.

Ekki nóg með það þá eru hvorki Bjarni eða Ólöf að taka poka sinn þrátt fyrir hlut sinn í Panama-hneykslinu sem hefur gert Ísland að miðpunkti athygli heimsins og það ekki á góðan hátt.

Nú er manni nokkuð ljóst að hjá Sjálfstæðisflokknum telur fólk skattaskjól, aflandsfélög og svona skattaundanskot almennt í lagi sé miðað við orð margra þingmanna, yfirlýsingar flokksfélaga, ungliða og annarra áhrifavalda innan flokksins.

Allir keppast þeir við að segja að Sigmundur þurfi að víkja en Bjarni og Ólöf séu bara hrein eins og nýþveginn þvottur.

Nema þvotturinn hefur ekkert verið þveginn eins og 40 milljónirnar hans Bjarna sem fóru í gegnum skálkaskjól.

Hann er með risastórum kúkablettum sem allir í heiminum sjá nema Sjálfstæðismenn.

Nota bene, allir í heiminum.

Bjarni og Ólöf eru nefnilega tvö af þessum þremur ráðherrum sem heimurinn veit að hefur verið að taka þátt í að fela fé sitt í skálkaskjólum ásamt Pútín, Assad, Gaddafi, banksterum, íslenskum útrásarvíkingum, eiturlyfjabarónum, mansalshringjum og barnaníðingum svo maður nefni nú nokkur dæmi um hverskonar fólk notast við aflandsfélög og skálkaskjól.

Svona skrípaleikur getur virkað hérna heima fyrir í heimóttarskapinn og dægurþras siðlítilla Íslendinga en fyrir utan landssteina geta flestir séð að verið er að leika blekkingaleik.

Það dugar nefnilega ekki að láta einn fjúka og láta svo spilltan fjárglæpamann sitja sem fastast í fjármálaráðuneytinu sem hann m.a. misbeitti völdum sínum til að koma í veg fyrir það að keyptir yrðu listar með nöfnum skattsvikara í skálkaskjólum sem hann reynist hafa verið á.

Ólöf er s.s. skárri miðað við ósannaðar útskýringar en hún þarf samt að víkja enda deilir hún þeim að hafa verið með aflandsfélag í skálkaskjóli við hlið eiturlyfjabaróna, mansalshringja, íslenska útrásarvíkinga, bankstera og barnaníðinga.

Ekki beint góður félagsskapur fyrir yfirmann lögreglu, saksóknara og dómstóla að hafa deilt skúffu með.

Því miður mun þetta samt vera aukaatriði hjá stjórnarliðum, sérstaklega Sjálfstæðismönnum sem hafa lagt allt kapp á að verja formanninn(líkt og sást hjá formanni Heimdallar í Kastljósi gærdagsins) framar áliti umheimsins á því sem honum var sýnt nú um helgina: spillingu og siðleysi sem hefur leitt til þess að Ísland hefur glatað trausti og virðingu sem verður varla endurheimt svo glatt aftur.

Eða eins og einn erlendi fréttamaðurinn sagði, það hefur komið honum(og örugglega mörgum) það á óvart að Ísland hefði ekki framkvæmt uppgjör á sínum málum eftir Hrun.

Það er nefnilega rétt hjá honum.

Uppgjörið fór bara að litlu leyti fram og hefur mætt sérstakri andstöðu af hálfu stjórnarflokkana sem lögðust á móti nýjum samfélagssáttmála og hafa gert allt til þess að koma hlutunum aftur í sama 2007 ástandið með offorsi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sérstaklega verið slæmur þar sem uppgjör dó þar strax þegar að Davíð henti út endurreisnarskýrslunni sem sóun á þeim trjám sem fóru í hana. Við það rifnaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins af hamingju, klappaði og hrópaði eins og það væri öfgakristnir á trúarsamkomu hommahatara frá Bandaríkjunum. Flokkurinn og foringinn hefur svo síðan verið verndaður framar því að byggja upp traust innan samfélagsins og hefur skilað því nú að virðing umheimsins fyrir Íslandi má finna í skolpræsum Tortóla.

Það er því hæpið að Sjálfstæðismenn stígi skref í átt til siðbótar Íslands og hendi Bjarna og Ólöfu út úr embættum sínum svo maður taki vægt til orða heldur eru þeir líklegri til að styðja það að fara íslensku leiðina sem er að halda í völdin sama hvað og bíða eftir að storminum slútti.

Manni finnst því eiginlega sem að það þurfi að leita út fyrir landsteinana eftir þrýstingi á afsögn Bjarna Ben hið minnsta þar sem valdaklíkunum úr Engey og útgerð hafa ákveðið að hann sé þeirra „huckleberry“ sem tryggi þeirra sérhagsmuni sem oft á tíðum eru andstæðir hagsmunum þjóðarinnar.

Erlendis er nefnilega litið það alvarlegum augum sem siðleysi, græðgi og þjófshátt að notast við skattaskjól og aflandsfélög til að fela hvað menn eru að gera með peningana. Það þyrfti því að benda erlendum fjölmiðlum á þetta en einnig hversu spilltur Bjarni Benediktsson er sem þingmaður, ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Án þeirrar athygli mun Bjarni, valdaklíkurnar og Sjálfstæðisflokkurinn eingöngu bíða þess að athyglin fari af landinu svo hægt sé að halda áfram óbreyttum leik.

Erlendir fjölmiðlar sem eru með mikinn áhuga á landinu núna þyrftu því að fá upplýsingar sem fyrst um eftirfarandi atriði sem sýna spillingu, siðleysi og hegðun sem annars staðar í vestrænum heimi væri búið að dæma Bjarna Ben í fangelsi fyrir:

  • ·       Það þyrfti að segja erlendum fjölmiðlum frá Vafningsmálinu og hvernig ættingjar Bjarna Ben og hann sjálfur tóku þátt í því að tæma bótasjóð Sjóvá svo Glitnir yrði ekki gjaldþrota snemma árs 2008. Afleiðingarnar af því urðu að að milljarðar lentu á almenningi vegna Sjóvá þegar það riðaði til falls.
  • ·       Það þyrfti að segja erlendum fjölmiðlum frá því þegar stuttu síðar eftir að Glitni var „bjargað“ með Vafningi þá seldu Bjarni Benediktsson þingmaður og faðir hans hlutabréfin sín í Glitni án þess að láta þjóð og þing vita að Glitnir stæði tæpt. Þeir gerðu það á grundvelli innherjaupplýsinga sem fáir aðrir höfðu aðgang að.
  • ·       Það þyrfti að segja erlendum fjölmiðlum frá því hvernig Bjarni Benediktsson flaug með einkaþotu í boði banka sem bauð honum í golf,  ábyrgð hans á gjaldþroti N1 sem olli fjölmörgum aðilum tjóni o.fl. slíku.
  • ·       Það þyrfti að segja erlendum fjölmiðlum frá því hvernig Bjarni Ben hefur misnotað vald sitt sem fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins til að tryggja að fyrirtæki í eigu náinna ættingja hans hafa fengið sérstaka skattaafslætti þrátt fyrir að eiga í samkeppni við önnur fyrirtæki.
  • ·       Það þyrfti að segja erlendum fjölmiðlum frá því hvernig Bjarni Ben lagðist á móti því að skattstjóri gæti keypt upplýsingar um fyrirtæki í skattaskjólum þar sem nafn hans má finna og hvernig hann reyndi að flækjast fyrir málinu í hvert einasta skipti. Það þyrfti líka að segja erlendum fjölmiðlum frá því að þegar ljóst var að af kaupunum yrði þá reyndi Bjarni Benediktsson að keyra af stað sérlög sem gæfu skattsvikurum friðhelgi ef þeir gerðu upp mál sín innan árs. Svo þyrfti að setja það í samhengi við upplýsingarnar sem hafa opinberast nú.

Ef það dugar ekki þá er af nógu að taka til viðbótar varðandi Bjarna Ben sem maður skilur sumpart ekki hvernig Sjálfstæðismenn nenna að standa í því að verja við hvert einasta spillingar- og hneykslismál sem Bjarna tekst að vefja sjálfan sig inn í.

Við verðum að tryggja að umheimurinn viti við hverskonar valdamann er að eiga og að erlendir aðilar sjái að hversu Ísland er raunverulega spillt og rotið. Við verðum að gera þeim ljóst að slíkt ástand mun verða viðloðandi áfram meðan Bjarni Ben og aðrir slíkir fara með völdin

Fyrr getum við ekki hafið uppgjör og endurreisn samfélagsins. Það er nefnilega algjörlega ómugulegt fyrr en þetta fólk hefur farið frá enda hefur reynslan sýnt að það flækist fyrir og reynir að koma í veg fyrir nauðsynlegar umbætur.

Þau verða því öll að fara frá.

Og ekki bara úr ráðherrastól heldur öllum ábyrgðarstöðum.

Fyrr er ekki hægt að ætlast til þess að umheimurinn fari að treysta okkur aftur.

Hvað þá að hann fari að bera snefil af virðingu fyrir okkur.

Slíkur er skaðinn eftir Sigmund, Bjarna, Ólöfu og alla aðra skattaskjólara.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni