Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

alþingi feilar strax

Þingmenn keppast núna af miklu afli við að segja við fjölmiðla og almenning hvað alþingi er æðislegt núna, allir glaðir og sáttir þar, vinni svo vel og fleira þessa daganna.

Flokksbundnir áróðursmiðlar taka svo undir þetta af fullum krafti og hrifningu með það ofurkappsmiklum hætti að maður kemst að þeirri niðurstöðu eftir smáskoðun að þetta sé tilraun til breiða yfir hið raunverulega að hætti almannatenglastéttarinnar síljúgandi.

alþingi hefur nefnilega feilað enn eina ferðina á upphafsmetrunum.

Og já, alþingi er ekki þess virði sem stendur að maður eyði stórum staf í það.

Það eru nefnilega sjáanleg fjölmörg merki þess ef maður kíkir undir yfirborð þessa almannatenglaleiks alþingismanna.

Það fyrsta og stærsta er meðhöndlun þess á hinu illa unnu lífeyrissjóðsmáli. Það er keyrt í gegn á ofsahraða af hálfu hins klofna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar með tilstuðningi hækju sinnar í Bjartri Framtíð sem hefur talað fyrir breyttum stjórnmálum en innihald þess sést best á þessari afgreiðslu.  Það er sama og ekkert tekið tillit til gagnrýni stéttarfélaganna sem segja að verið sé að svíkja samkomulag, það er verið að afnema stjórnarskrárvarin lífeyrisréttindi hjá fjölda fólks. Ekki nóg með það heldur er það gert afturvirkt. Það er nokkuð sem þingmenn hafa talað um að komi ekki til greina í öðru tilfelli þ.e. þegar kemur að því að sækja eigur útrásarvíkinga upp í skuldir ríkissjóðs vegna Hrunsins og sem skaðabætur til handa almenningi sem hefur þurft að bera þungann af Hruninu með atvinnu og eignamissi. Þá er það víst hættulegt fordæmi að mati þingmanna en greinilega ekki þegar kemur að því að stela réttindum af launafólki en þennan réttindaþjófnað á eftir að verða þeim dýrkeyptur þar sem tilkynning um fyrstu lögsóknina gegn ríkinu hefur komið fram og vonandi verður þessum ólögum troðið upp í SALEK-ið á þeim sem samþykktu þau.

Annað merki þess að alþingi hafi feilað er meðhöndlun tveggja annarra mála sem hafa valdið mikilli óánægju meðal launafólks. Hið fyrra er hvernig farið var með úrskurð Kjararáðs. Í stað þess að afnema hann og reyna að ná sátt við almenning þá er ákveðið bara að breyta lögum um hverjir eigi að fá kauphækkun og alþingismenn halda áfram svívirðilegum launahækkunum sínum. Þetta er gert á sama degi og þeir svipta fjölda fólks áunnum lífeyrisréttindum.

Eða eins og einn orðaði það: Það var skert hjá hinum lægra settu svo að elítan geti haldið sínu.

Hitt málið er nú eldra en Kjararáðsúrskurðurinn og það eru svívirðilegir bónusar slitastjórna Kaupþings og Landsbankans. Þá voru þingmenn ofurhneykslaðir og þóttust ætla að gera eitthvað í þessu fyrir kosningar með t.d. skattlagningu þegar prófkjörin voru í gangi. Fyrirsjáanlega gerðist ekki neitt þá né þegar þingmönnnum hafði tekist að blekkja sig aftur inn á þing en hinir nýju gerðu heldur ekki neitt í því að koma því inn í fjárlög . Talið um að skattleggja þessa bónusa svo þeir skiluðu sér til þjóðarinnar hreinlega hvarf og eiginlega það eina sem kemst nálægt því er þegar Gulli Þór fór að tala 2007-lega um að við ættum ekki að skattleggja auðmenn því þeir gætu farið úr landi. Þetta gat hann sagt án mikilla mótbárna því að hann veit að núna getur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf treyst á Bjarta framtíð þegar kemur að því að verja hagsmuni auðmanna og atvinnurekenda gegn almenningi.

Þriðja merki þess sást glytta í þegar kom að umræðum um breytingartillögur frá VG. Þá varð skyndilegur ofsaskjálfti meðal þingmanna hægri flokkana sem þóttust ofbjóða vinnubrögðin við að leggja tillögur fram um tekjuliði sem sækja átti til hinna ríku atvinnurekenda. Þetta sama lið var nú ekki beint að hugsa um gæði vinnubragða þegar kom að afgreiðslu lífeyrissfrumvarpsins heldur sat þar og jánkaði öllu sem Bjarni Ben sagði þeim að gera á þessum hórukassa hagsmunasamtaka atvinnurekenda og auðmanna sem alþingi er. Formaður VG sást koma í fréttum upp í pontu ekki sátt við ásakanirnar og benti á sem rétt var að það væri ekkert sem bannaði að koma með breytingartillögur eða fá umræðu um þær enda þurfum við að fara að ræða hvernig við förum að láta freka ferðaþjónustukallinn og auðugu afæturnar leggja eitthvað til samfélagsins. Svokallað alþingi er einn vettvangur fyrir slíkar umræður og sá eini sem getur sett lög til þess.

Fjórða merkið sást svo í umræðum um fjárlög þegar Pírötum var greinilega nóg boðið vegna áhugaleysis um að bæta hag Landsspítalans og heilbrigðiskerfisins. Þá stilltu þeir sér upp í málþófsstellingar með þiem afleiðingum að þingsalur titraði af skelfingu um að jólafríinu myndi seinka og í hvelli tókst að kreista út úr SALEK-inu á Bjarna Ben 2,2, milljarða til að redda Lansanum fyrir horn í bili. Reyndar tókst þeim ekki að lækka fé til kirkjunnar sem hefur minnkað að stærð en vegna ofsatrúarhita hægrimanna þá var fé til hennar hækkað.

Fimmta merki þess er allur atgangurinn við að klára öll mál fyrir jól þegar þingið er í raun nýhafið og fara svo í jólafrí til 24. janúar, þiggjandi laun upp á tvær millur á mánuði sitjandi yfir Leiðarljósi eða hvað annað það sem er ofurlaunaðir þingmenn gera af sér milli þess sem þeir segja já og nei fyrir ráðherra í hefðbundnu íslensku stjórnarfari. Þingmenn hefðu vel getað unnið hlutina betur á milli jóla og nýárs og fram í janúar ef vilji þeirra hefði staðið til að „sinna brýnum verkefnum“. Hverskonar vinnustaður er það annars sem tekur af sjálfsdáðum sér svona mikið frí þegar annar hver maður þar röflar um að „það liggi á að fara að vinna sem fyrst að brýnum verkefnum fyrir þjóðina“?

Þingmenn hefðu vel getað unnið hlutina betur á milli jóla og nýárs og fram í janúar ef vilji þeirra hefði staðið til að „sinna brýnum verkefnum“.

Sjötta merki þess er bleiki fíllinn sem skeit i pontu þingsins en enginn vill tala um: Sigmundur Davið. Það ríkir algjör meðvirkni með honum af hálfu þingmanna og þings, ekkert er gert til að taka á mætingu né talað um að þetta sé ámælisvert. Bara þögn og látið eins og að Simmi, Bjarni Ben og Ólöf hafi ekkert gert af sér, Panama-skjölin eru ekki lengur til og ekkert gert til að sýna að það eigi að taka á þeim og öðrum þeim sem notast við skattaundanskotskjól. Við urðum að athlægi heimsins vegna þeirr og við fórum í kosningar út af þeim en þingmenn virðast telja það A-OK.

Og sjöunda merki þess að alþingi hefur feilað strax er að þrátt fyrir fögur orð um annað þá hafa velflestir þingmenn svikið kosningaloforð um úrbætur í heilbrigðiskerfi strax en láta duga plástra þar til vitað hvernig eigi að taka næsta skref í einkavinavæðingu heilbrigðiskerfisins í átt til albanska brons-, silfur- og gullpakkakerfis sem Samtök Atvinnulífsins dreymir um.

alþingi hefur feilað strax.

Þeim feilum til að bæta traust, vinnubrögð og sátt í samfélaginu á eftir að fjölga.

Ekki einu sinni almannatenglaherferð getur bjargað því.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni